Pages

miðvikudagur, júlí 20, 2011

Matjurtirnar sumarið 2011

Í fyrra sumar tók ég mig til og stakk upp beðin hérna í bakgarðinum og púlaði við það að reita arfa og sá fyrir káli. Ég fílaði það vel að vera með matjurtargarð og dreymi um að gera eitthvað slíkt aftur.

Ég var líka með fjölmargar kryddjurtir í eldhúsglugganum sem ofþornuðu þegar ég skrapp í þriggja vikna vinnuferð í vetur og lét þær í umsjón húsbóndans. Þetta sumarið var ég ekki jafn myndaleg. En ég fékk gefist nokkrar tómatplöntur og þær hafa heldur betur gefið af sér.

Við fjölskyldan höfum ekki sest niður saman og borðað kvöldmat í þó nokkur kvöld í röð og því var tilefni til að gera eitthvað gott í kvöld þegar loksins varð af því. Við grilluðum lundir og ég tíndi nokkra rauða tómata af plöntunni góðu.


Ég var einhvernvegin alveg viss á því að tómatarnir yrðu bragðmeiri svona heimaræktaðir, en sú var ekki raunin. Þeir voru mjög mildir og ljúfir.


Meira að segja einkasonurinn át smá tómat, en vanalega segir stingur hann tómat upp í sig og eftir smá stund heyrist "Oj bara" og tómaturinn kemur á express hraða út og oftast í hendina mína. Það er jú betra að spýta í lofa, ekki satt?

Ljúf sumarmáltíð í sólinni.

mánudagur, júlí 18, 2011

Unnur og Bokki eru hjón, kyssast upp á títiprjón

sumarið er svo frábær tími! Ég bara nenni ekki að sitja inni og pikka á tölvuna, ekki einu sinni á kvöldin. En það er ekki þar með sagt að ég sé ekki með neitt á prjónunum... nei fýkillinn passar sig á því!

Um daginn prjónaði ég peysuna Unnur og bókinni Fleiri Prjónaperlur. Það er svolítið síðan ég kláraði hana en ég hafði bara aldrei fundið rétta tímann til að taka sætar myndir af prinsinum (sem að vísu tekur ekki í mál að vera kallaður prins, hann er bara kóngur!) í peysunni. Það er líka með þessa gaura sem eru tveggja og hálfs að þeir hafa skoðanir á því í hverju þeir eru svo að peysan fékk að bíða þar til rétt tækifæri gafst til að taka myndir.

Tækifærið gafst loks í vikunni þegar við skruppum vestur og sigldum inn í fallegu eyjuna Vigur. Eins og sönnum sjómönnum sæmir þá var lopapeysan tekin fram og fjörið hófst. Farþegarnir urðu þreyttir á leiðinni út í eyju bara á því að horfa á Högna hlaupa fram og aftur og syngja hástöfum "113 vælubíllinn, víú víú víú víú" bróðurpart ferðarinnar. Held að hann hafi samt ekki truflað ... mikið.

Ástæðan fyrir að þessi peysa varð fyrir valinu er sú að ég hafði áður prjónað Bokka upp úr bókinni Prjónaperlur sem ég var svo svakalega ánægð með og Unnur er svolítið stolin útgáfa af þeirri peysu. En ég held að ég verði að viðurkenna mér finnst Bokki fallegri. Það er eitthvað svo einfalt og sveitó við Bokka.


Bæði Bokki og Unnur eru prjónaðar úr einföldum plötulopa sem er alveg frábært efni til að vinna úr. Unnur er prjónuð fyrir 3-4 ára og mér finnst hún heldur of stór. Hefði viljað hafa hana ögn minni og passlegri.

laugardagur, júlí 09, 2011

Opin lopapeysa án þess að nota saumavél

...er það hægt?

já greinilega. Sá þetta fyrst fyrir þó nokkuð löngu á blogginu prjónastelpan, en þar sýnir prjónastelpan hversu auðvelt það er að hekla fyrst kanntinn eftir kúnstarinnar reglum og svo bara klippa, allt gert án þess að nota saumavél.
Síðan þá hef látið hina og þessa vita af þessu. Hef samt ekki sjálf prófað það, en mér skilst að þetta sé ekkert mál. Aftur á móti held ég að þetta sé ekki jafn auðvelt með annað garn en Lopann. Lopinn er svo magnaður.

miðvikudagur, júlí 06, 2011

Mýtur og handavinna

Í gær hittist prjónahópurinn sem ég er þátttakandi í enn og aftur. Virkari prjónahóp (sem prjónar í raun og veru) hef ég aldrei verið í. ...well, ég hef aldrei verið í prjónahóp svo það kannski segir líka sitt.

Nema hvað þar sagði ein frá því að rússnesk vinkona hennar hefði ekki verið sátt þegar hún stakk prjónunum í garnið eftir að prjónatímanum þeirra lauk, því það boðaði illt.


Ég fann fyrir skemmtilegu mannfræði-kítli í maganum. Í fljótu bragði man ég ekki eftir mögrum þjóðsögum, sögusögnum, hjátrú eða mýtum um prjóna eða handavinnu almennt.

Manst þú eftir einhverri? Ertu til í að deila?

sunnudagur, júlí 03, 2011

Víkingahúfa

Við fórum á víkingahátíð í Hafnafirði um daginn. Högni var yfir sig hrifinn af víkingunum og kallaði hátt og snjallt "Óðinn, Óðinn!" og "Víkingarnir slást!"


Hann var svolítið hræddur við þá, en samt voru víkingarnir meira spennandi. Svo ótinn var láttinn víkja. Enda fékk hann að halda á hníf! hversu töff er það?

Á einu trítli um miðbæinn þar sem ekki er þverfótað fyrir túristaverslunum sáum við plast sverð og hjálm og mamman bara varð. Enda varð drengurinn himinlifandi glaður. Þetta dót hefur fylgt honum hvert skref, jafnvel í bólið. Hann kallar hátt og snjalt "Óðinn" og svo á hann það til að detta í gólfið (mamman vill meina að hann detti, hann sjálfur segist deyja, sem mér finnst ekki alveg nógu gott).
Afi Þór fór svo með honum í stuttan göngutúr um Garðabæ þegar það var miðsumarhátíð og Högni sló að sjálfsögðu í gegn. Enda kann hann víkinga taktana.

Svo mátti ég til með að prjóna víkingahúfu á karlinn. Hérna er uppskriftin Víkingahúfa, ég veit ekki hvort hún sé 100% þar sem enginn hefur lesið hana yfir en hún er einföld. Allar ábendingar eru vel þegnar á marinthors@gmail.com og ekki er verra að fá sendar myndir ef þið ákveðið að skella í eina húfu fyrir lítinn víking.

föstudagur, júlí 01, 2011

Sokkaprjón

Sumarið er farið að segja til sín og í nógu að snúast. Í gær átti ég yndislega stund með vinum mínum á Haðarstígnum. Grill, róló, súkkulaðikökur og börn, fullt af börnum, en Högni var samt ekki. Hann var í góðu yfirlæti hjá Ömmu Steinu. "Amma Steina, best í heimi" eins og hann segir sjálfur.

Á fimmtudaginn bauð mamma mér í partý. Ekki beint villtasta partý sem ég hef farið í en þetta var útgáfupartý á bókinni Sokkaprjón eftir Guðrún Magnúsdóttur. En mamma og hún Guðrún eru gamlar vinkonur. Guðrún er rosaleg handvinnu-kerling og á hverju ári bíðum við spennt eftir að skoða jólakortið frá henni og tvíburasystur hennar því það er alltaf eitthvað ofsalega fallegt handverk á ferð.

Í bókinni Sokkaprjón, eru 52 sokka uppskriftir fyrir alla, konur, karla, krakka og kakkalakka... (samt ekki kakkalakka fannst bara vanta eitt k orð til viðbótar). Og ófáir sem ég þarf að prófa. Mæli með að kíkja á þessa bók, hún er fallega uppsett og full af fallegum uppskriftum.

Svo um helgina ætla ég að setja inn uppskrift af víkingahúfinni minni, fyrir 2-3 ára víkinga. Kann bara ekki að tengja pdf skjla við síðuna, en geng í það mál ASAP.

Svo munið að það er hægt að læka við Z-una á Facebook og svo auðvita elska ég comment :)